31.5.2008 | 03:06
Er hægt að keppa í fegurð? pælingar.
Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort hægt sé að keppa í fegurð, og hef enn ekki komist að niðurstöðu. Hér eru nokkrar vangaveltur:
Ég get vel skilið að fólk geti keppt í hlaupi og þess háttar, því þar hefur það lagt heilmikið á sig. Það hefur unnið fyrir því að vinna. En fegurð er ekki eitthvað sem maður þjálfar heldur eitthvað sem við fæðumst með. Okkur er gefið! Og því höfum við ekki áorkað neinu eða unnið til þess að fá hrós.
Á móti má segja að allir þeir sem eru góðir í einhverju séu fæddir með þá hæfileika. Söngvari er fæddur með gott tóneyra og fallega rödd. Þótt hann þjálfi hana er hún engu að síður gjöf. Ofan á þetta bætist að það er heilmikil vinna á bak við fegurðarkeppni og það þarf að hafa fyrir því að vera falleg(ur). Maður þarf að huga að mataræðinu, klippingu, klæðaburði, göngulagi, brosi o.s.frv.
Þessu má svara með því að benda á að ólíkt söng, myndlist, hlaupi o.s.frv. er fegurð ekki hæfileiki, heldur ástand, jafnvel þótt maður þurfi að hafa fyrir því að halda því ástandi við eða draga það fram. En þá má einnig svara með því að segja að allir hæfileikar byggist á ástandi.
Og hvað er fegurð? Það sem einum finnst fallegt, finnst öðrum ljótt. Mér finnst t.d. flestar þeirra kvenna sem keppa í fegurðarkeppnum ekki fallegar. Þær höfða ekki til mín, vegna þess að þær eru svo venjulegar. Allt er svo mikið 100% rétt og fullkomið að það hættir að vera spennandi eða heillandi. Ég hef alltaf hrifist af konum sem hafa eitthvað sérstakt við útlit sitt, en slíkar konur myndu aldrei sigra í svona keppni. Á móti má benda að það er jafn erfitt að keppa í list (eins og söng, bókmenntum, kvikmyndum o.s.frv.). Það sem einum finnst fallegt finnst öðrum ljótt.
Svona getur maður farið í hring eftir hring. En það er sama hversu mikið ég velti þessu fyrir mér, mér finnst alltaf eitthvað rangt við að keppa í fegurð. Ég get bara ekki útskýrt það. Ástæðan er líklega einna helst sú að keppnir sem þessar viðhalda óeðlilegri staðalmynd, sem er líklega skaðleg í ofan á lag.
Gaman væri þó að heyra álit annarra.
Alexandra Helga valin ungfrú Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Í raun er þetta keppni í að heilla sem flesta. Það er ekki bara útlitið, sjálfstraust og útgeislun skipta miklu máli og það hlýtur að vera eitthvað sem hægt er að þjálfa.
Mér finnst ekkert að því að fólk keppi því sem það vill, hvort sem það meikar sens fyrir öðrum eða ekki.
Ég alveg sammála því að þetta sé með eindæmum hallærislegt en ég held það sé nú ekki skaðlegt.
valderama (IP-tala skráð) 31.5.2008 kl. 03:42
Keppni í að heilla alla? Ég veit ekkert um hana þannig að hún hefur enn ekki heillað mig. Þarna er verið að keppa í staðalímyndum. Þetta hefur ekkert með innri fegurð að gera. Fegurð er huglæg, líka innri fegurð. Persónulega finnst mér húmor og ákveðið útlit fallegt, og það hefur lítið með aflitað hár, spreybrúnku, meik og undirföt að gera. Þetta viðheldur þeim sorglegu og ónáttúrulegu hugmyndum um hvernig konur (og unglingsstúlkur) eiga að líta út. Þarna "sigrar" 18 ára unglingur. Hvaða reynslu hefur hún af heiminum sem að gæðir hana innri fegurð? Hún er nær ómótuð! Þetta er auðvitað bara rugl.
Linda (IP-tala skráð) 31.5.2008 kl. 08:21
Ég og dóttir mín 8 ára horfðum á smá part af þessari "keppni" og við vorum svo innilega sammála um hvað þetta væri hallærislegt. Bara þetta dæmi með kórónurnar,- kommon,- meira að segja sú 8 ára var í losti,- "ég er löngu hætt að vilja hafa kórónu" sagði hún !!!
Staðalmyndabull og þvæla............
Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 31.5.2008 kl. 13:12
ég var mikið hrifinn af þessum hlutum sem stelpukorn.en í dag er þetta fyrir mer eins og hrútasjó og hananú.goða helgi
Adda bloggar, 31.5.2008 kl. 14:30
Ef einhver hefur áhuga á því að keppa í staðalmyndum er það ekki allt í lagi?
Svo má líka deila um það hve huglæg fegurð er, þetta tengist víst eitthvað þróun mannsins og líkur á að eignast heilbrigð börn, þó ég þorir ekki að hengja mig uppá það.
valderama (IP-tala skráð) 31.5.2008 kl. 16:26
Þetta er ekki bara spurning um fegurð. Líka hvernig hún er andlega séð, hvort hún hafi flotta framkomu og útgeislun, og hún þarf líka að geta tjáð sig. Ég hefði viljað sjá Brynju komast lengra áfram, og Aðalbjörg. En mér finnst ekkert að þessari keppni.
Ulfar (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 02:05
Já, nú?
bróðir pabba (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 16:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.